Sjómenn eru orðnir tekjuhæsta stétt landsins og slá þeir forstjórum við hvað launin varðar eins og sjá má í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kemur út í dag.
Í blaðinu eru birtar tekjur yfir 3 þúsund þekktra Íslendinga og tekjur stjórnenda allra helstu fyrirtækja landsins. Jón G. Hauksson ritstjóri blaðsins segir að blaðið var unnið á methraða og lauk prentun í nótt aðeins 20 klukkustundum eftir að álagningarskrár voru lagðar fram í gærmorgun.
Sjómenn eru tekjuhæsta stéttin í blaðinu og toppa þeir forstjóra, starfsmenn fjármálafyrirtækja, næstráðendur og lækna í launum.
Tekjur 200 efstu sjómanna á listanum námu 2,4 milljónum króna á mánuði á meðan 200 efstu forstjórarnir voru með meðaltekjur upp á 2,2 milljónir kr. á mánuði og höfðu forstjórarnir þó hækkað um 200 þúsund kr. á mánuði frá því síðast.
Næstráðendur og millistjórnendur hafa hækkað verulega í tekjum eða um 300 þúsund krónur á mánuði. Nema tekjur 200 efstu næstráðenda núna um 2 milljónum kr. á mánuði og hafa þeir saxað verulega á forstjórana.
Tekjur Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra námu 1.241 þúsund kr. á mánuði í fyrra og hafa þau hækkað um 165 þúsund kr. á mánuði á tveimur árum.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var með 1.613 þúsund kr. á mánuði og hafði hækkað um 51 þúsund kr. á mánuði.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, er tekjuhæstur fjölmiðlamanna með rúmar 2 milljónir kr. á mánuði.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er tekjuhæstur forstjóra með 10,2 milljónir kr. á mánuði. Finnur Árnason, forstjóri Haga er með 6,2 milljónir kr. á mánuði og Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, er með tæplega 5,9 milljónir kr. á mánuði.
Jakob Már Ásmundsson, framkvæmdastjóri hjá Straumi banka, er líkt og í fyrra efstur á meðal starfsmanna fjármálafyrirtækja. Núna með um 7,7 milljónir króna á mánuði samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar.
Þetta er tuttugasta og fjórða árið í röð sem Frjáls verslun fjallar um tekjur einstaklinga út frá framlögðum álagningarskrám.
Sjómenn orðnir tekjuhærri stétt en forstjórar

Mest lesið


Bobbingastaður í bobba
Viðskipti erlent

Stytta skammarkrókinn til muna
Neytendur

Gjaldþrota meðhöndlari
Viðskipti innlent


Erlend gagnaver sögð skila litlu í þjóðarbúið
Viðskipti erlent

Ráðin mannauðs- og gæðastjóri Hörpu
Viðskipti innlent

Auðunn ráðinn viðskiptastjóri Reita
Viðskipti innlent

