Fótbolti

Buffon segir að þjálfari sinn óttist ekkert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. Mynd/AFP
Gianluigi Buffon, markvörður Juventus og ítalska landsliðsins, ætlar að standa með þjálfara sínum Antonio Conte þrátt fyrir að Conte hafi verið dæmdur í tíu mánaða bann af ítalska knattspyrnusambandinu.

Conte var fundinn sekur um að hafa ekki tilkynnt grunsemdir um hagræðingu úrslita leikja með Siena í b-deildinni tímabilið 2010-2011. Conte hefur þó ávallt haldið fram sakleysi sínu og ætlar að gera það áfram.

Antonio Conte gerði Juventus að ítölskum meisturum á sínum fyrsta ári með liðið og það er ljóst að hans verður sárt saknað á þessu tímabili. Juventus-menn geta þó glaðst yfir því að leikmennirnir Leonardo Bonucci og Simone Pepe voru sýknaðir.

„Ég er ánægður því bæði Simone og Leonardo eru góðir vinir mínir. Ég vil hrósa þeim fyrir að standast svona pressu af miklu hugrekki. Ég og stjórinn eigum gott samband enda liðsfélagar í gamla daga. Ég trúi því að baráttuandinn sé í hans DNA og hann óttast ekkert," sagði Gianluigi Buffon.

Gianluigi Buffon og félagar spila fyrsta leikinn án Antonio Conte í Peking á morgun þegar liðið mætir bikarmeisturum Napoli í árlegum leik í Meistarakeppninni. Liðið verður einnig án aðstoðarþjálfarans Angelo Alessio sem var dæmdur í átta mánaða bann enda líka aðstoðarmaður Conte hjá Siena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×