Körfubolti

Fyrsta tapið hjá Jóni Arnóri og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Anton
Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í CAI Zaragoza töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar þeir heimsóttu Valencia Basket í dag í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta. Valencia var líka búið að vinna tvo fyrstu leiki sína og vann leikinn 83-73. Haukur Helgi Pálsson og félagar í Assignia Manresa þurftu á sama tíma að sætta sig við þriðja tap sitt í röð.

Jón Arnór var rólegur í leiknum á sínum gamla heimavelli en hann skorað 5 stig á 23 mínútum og hitti úr 2 af 4 skotum sínum. Bandaríkjamennirnir Michael Roll (16 stig, 6 stoðsendingar) og Joseph Jones (14 stig) voru atkvæðamestir í liði CAI Zaragoza.

CAI Zaragoza var 18-17 yfir eftir fyrsta leikhlutann en Valenica náði þriggja stiga forystu, 38-35, fyrir hálfleik. Valenica hélt áfram frumkvæðinu í seinni hálfleik og var með átta stiga forskot, 59-51, fyrir lokaleikhlutann. CAI Zaragoza kom muninum niður í fjögur stig áður en Valencia gerði út um leikinn með Spánverjann Pau Ribas í fararbroddi en hann skoraði 27 stig í leiknum.

Haukur Helgi Pálsson var með 2 stig og 4 fráköst á 13 mínútum þegar lið hans Assignia Manresa tapaði með tólf stigum á útivelli á móti Joventut, 71-83.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×