Um árabil hefur Windows verið vinsælasta stýrikerfi veraldar. Á síðustu misserum hefur Microsoft þó átt erfitt með að fóta sig við breyttar markaðsaðstæður, þar sem höfuðáhersla er lögð á snjallsíma, spjaldtölvur og straumlínulagað notendaviðmót.
Windows 8 er svar Microsoft við þessum breytingum.
Stærsta breytingin, og jafnframt sú umdeildasta, er Metro-valmyndin. Start-hnappurinn sem flestir þekkja er ekki lengur til staðar. Þess stað hefur Microsoft þróað notendaviðmót sem á að auðvelda notkun stýrikerfisins á bæði tölvum og snjallsímum.
Windows 8 þykir mikill prófsteinn fyrir Microsoft enda berst fyrirtækið nú við að halda í viðskiptavini sína. En á sama tíma og nýja stýrikerfið lítur dagsins ljós undirbýr Microsoft útgáfu spjaldtölvunnar Surface en í henni sameinast hugbúnaður og vélbúnaður Microsoft í fyrsta sinn.
Hægt er að sjá kynningarmyndband fyrir Windows 8 hér fyrir ofan. Í spilaranum fyrir neðan er hægt að horfa á kynningu á stýrikerfinu. Einnig er hægt að nálgast allar upplýsingar um stýrikerfið á heimasíðu Microsoft.