Skoðun

Evran hefur fallið á prófinu

Björn Bjarnason skrifar
Evran hefur fallið á prófinu

Á dögunum svaraði ég rangfærslu Össurar Skarphéðinssonar. Ég hef hvergi stutt upptöku evru. Í greininni sagði ég að evran hefði fallið á prófinu síðan 2007.

Þröstur Ólafsson segir í Fréttablaðinu 29. september að þetta sé ?alrangt?. Evran hafi staðist prófið. Evran haldi gildi sínu og vísar hann þar til stöðu hennar gagnvart dollar.

Undanfarin misseri hefur verið efnt til á þriðja tug leiðtogafunda evru-ríkjanna til að ræða ágalla á evru-samstarfinu. Fjármálaráðherrafundirnir eru mörgum sinnum fleiri. Sumir dagskrárliðir þessara funda eru um óleystan vanda í einstökum ríkjum. Aðrir snúast um evruna sjálfa af því að myntsamstarfið hefur ekki staðist prófið.

Almenn samstaða er um að illa hafi verið staðið að málum við gerð Maastricht-sáttmálans 1993. Hina pólitísku umgjörð hafi í raun skort um evruna. Nú skal bætt úr því með ríkisfjármálasamningi og öðrum aðgerðum sem ganga enn frekar á fullveldi einstakra ríkja og þrengja að fjárlagavaldi þjóðþinga evru-ríkjanna.

Menn gripu ekki til örþrifaráðanna sem eru efst á baugi í evru-löndunum, skuldugum og hinum betur settu, nema vegna þess að evran hefur ekki staðist prófraunina hvað sem gengi hennar líður. Þetta gengi er einfaldlega að leggja atvinnulíf sumra evru-ríkja í rúst eftir að bankakerfi hafa hrunið.

Þröstur segir að nú vilji mest skuldsettu evru-ríkin ekki hverfa frá evrunni. Hver bítur í höndina sem fæðir hann? Meginspurningin nú er hvenær spænska ríkisstjórnin fer með betlistaf að nýju til Brussel. Stolt Spánverja hefur haldið aftur af þeim.

Lítil samúð með þjóðum í stórvanda felst í að segja evruna hafa staðist áraunina. Ég vísa til föðurhúsanna að ég greini ekki rétt frá staðreyndum þegar ég segi evruna hafa fallið á prófinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×