Körfubolti

Helena stigahæst í sigurleik Góðu englanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/Good Angeles Kosice
Helena Sverrisdóttir átti mjög góðan leik þegar Good Angeles Kosice vann öruggan 39 stiga sigur á ungverska liðinu UNIQA Euroleasing Sopron, 96-57, í slóvakísku-ungversku deildinni í gær. Good Angeles Kosice vann þar með alla leiki sína í deildinni en fjögur efstu liðin komust í úrslitakeppnina.

Helena setti niður fjórar þriggja stiga körfur í þessum flotta sigri í leik efstu liðanna í deildinni og skoraði alls 15 stig alveg eins og bandaríski framherjinn Plenette Pierson. Helena fékk þó aðeins að spila 14 mínútur í leiknum en hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum og 3 af 4 vítum.

Helena var einnig með eitt frákast og eina stoðsendingu en hún hefur skorað 40 stig í síðustu þremur leikjum liðsins í MEL-deildinni þar sem hún hefur sett niður 9 af 12 þriggja stiga skotum sínum.

Good Angeles Kosice var með fullt hús í þessari deild alveg eins og deildinni heima fyrir en framundan er síðan úrslitakeppni Euroleague um næstu helgi. Úrslitakeppnirnar í slóvakísku deildinni og MEL-deildinni (slóvakísku-ungversku deildinni) fara síðan fram seinna í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×