Fótbolti

Fábregas og Sánchez sáu um Mallorca

Stefán Árni Pálsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona var ekki í neinum vandræðum með Mallorca í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld en liðið rústaði leiknum 5-0 sem fór fram á Neu Camp í Barcelona.

Fyrsta mark leiksins kom eftir tuttugu mínútna leik þegar Fábregas kom boltanum í netið eftir laglegan undirbúning frá Alexis Sánchez. Tveim mínútum síðar skoraði  Sánchez annað mark heimamanna og þá var það Fábregas sem átti stoðsendinguna.

Fábregas skoraði síðan sitt annað mark í leiknum, átta mínútum fyrir lok hálfleiksins og aftur var það Alexis Sánchez sem átti stoðsendinguna hjá samherja sinn. Aðeins einni mínútu síðar skoraði síðan Sánchez fjórða mark Barca í leiknum og enginn annar en Cesc Fábregas átti frábæra stoðsendingu á Sánchez í aðdraganda marksins. Staðan var 4-0 í hálfleik og þessir tveir leikmenn Barcelona voru á þeim tíma í raun búnir að klára leikinn á fyrstu 45 mínútunum.

Heimamenn skoruðu fimmta mark leiksins í upphafi síðari hálfleiksins og fullkomnaði þá Cesc Fábregas þrennu sína eftir laglegan undirbúning frá Andreas Iniesta.

Seint í leiknum var Eric Abidal skipt inná af varamannabekk Barcelona en þetta var í fyrsta skipti sem leikmaðurinn stígur fæti inná knattspyrnuvöll eftir að hann hafði greinst með krabbamein í lifur. Eftir erfiða og stranga meðferð er þessi franski leikmaður aftur komin í gang. Abidal hafði ekki leikið knattspyrnu í 402 daga fram að leiknum í kvöld. 

Leiknum lauk síðan með öruggum sigri Barcelona sem er í efsta sæti deildarinnar 75 stig en Mallorca er aftur á móti í neðsta sæti deildarinnar með 24 stig og á litla sem enga möguleika á því að halda sæti sínu í deildinni.

Staðan í spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×