Fótbolti

Atlético vann Real í bikarúrslitaleiknum - Ronaldo fékk rautt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty

Atlético Madrid er spænskur bikarmeistari í knattspyrnu eftir 2-1 sigur á Real Madrid í framlengdum bikarúrslitaleik á Santiago Bernabéu í kvöld. Brasilíumaðurinn Miranda skoraði sigurmarkið á 98. mínútu. Real Madrid endaði leikinn með tíu menn eftir að Cristiano Ronaldo fékk rauða spjaldið á 117. mínútu. Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, fékk líka rautt.

Þetta er tíundi bikarmeistaratitill Atlético Madrid sem hafði unnið bikarinn síðast árið 1996 eftir sigur á Barcelona í framlengingu. Atlético Madrid var búið að tapa þremur bikarúrslitaleikjum í röð: 1999, 2000 og 2010.

Þetta er annað árið í röð sem Atlético Madrid vinnur titil undir stjórn Argentínumannsins Diego Simeone (tók við í nóvember 2011) því liðið vann Evrópudeildina í fyrra.

Real Madrid fékk draumabyrjun þegar Cristiano Ronaldo kom liðinu í 1-0 á 14. mínútu með skalla eftir hornspyrnu Mesut Özil. Diego Costa jafnaði á 35. mínútu eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Real Madrid frá Radamel Falcao.

Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, var sendur upp í stúku á 76. mínútu fyrir að mótmæla ákvörðun dómarans.

Þannig var staðan í lok leiksins og því þurfti að framlengja leikinn. Atlético Madrid var miklu betra liðið í framlengingunni. Miranda tryggði Atlético Madrid bikarinn með skalla á 98. mínútu eftir fyrirgjöf frá Koke.

Cristiano Ronaldo fékk rauða spjaldið fyrir að sparka í Gabi á 117. mínútu en þá varð allt vitlaust fyrir framan varamannabekknum sem og í stúkunni því einhverju var kastað í Thibaut Courtois, markvörð Atlético Madrid. Gabi fékk skömmu seinna sitt annað gula spjald og þar með rautt. Leikurinn hélt loksins áfram og Atlético-liðið landaði fyrsta bikarmeistaratitilinum í 17 ár.

José Mourinho, þjálfara Real Madrid, mistókst því að vinna stóran titil á þriðja tímabilinu í röð en liðið varð bikarmeistari 2011 og spænskur meistari í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×