Körfubolti

Þrjú silfur og fjögur í úrvalsliðum NM unglinga í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
18 ára stelpurnar voru kátar í leikslok.
18 ára stelpurnar voru kátar í leikslok. Mynd/KKÍ
Íslensku unglingalandsliðin í körfubolta unnu til þrennra silfurverðlaun á Norðurlandamóti unglinga í körfubolta sem lauk í Stokkhólmi í dag. Bæði 18 ára liðin sem og 16 ára lið karla urðu í 2. sæti á mótinu en 16 ára stelpurnar urðu að sætta sig við 4. sætið.

Íslenska 16 ára landsliðið tapaði stórt á móti Dönum í úrslitaleik um Norðurlandameistaratitilinn í  en íslensku strákarnir voru búnir að fara á kostum í fyrstu fjórum leikjum sínum á mótinu. Danir unnu leikinn með 19 stiga mun, 88-69.  Haukamaðurinn Kári Jónsson var langstigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig en Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson var með 11 stig og 8 fráköst og Halldór Hermannsson frá Þór Þorlákshöfn skoraði 10 stig.

18 ára liðin tryggðu sér aftur á móti silfrið með góðum sigrum á Dönum. Bæði liðin þurftu að vinna sína leiki til að tryggja sér annað sætið en hvorugt liðið átti möguleika á gullinu.

18 ára stelpurnar unnu sannfærandi 60-46 sigur þar sem Njarðvíkingurinn Guðlaug Björg Júlíusdóttir skoraði 14 stig, Hamarstelpan Marín Laufey Davíðsdóttir var með 13 stig og 14 fráköst og Haukastelpan Lovísa Björt Henningsdóttir skoraði 12 stig.

18 ára strákarnir unnu Dani örugglega í lokaleiknum 78-53. Stjörnumaðurinn Dagur Kár Jónsson skoraði 27 stig og Njarðvíkingurinn Maciej Baginski var með 25 stig og 10 fráköst.

Ísland átti fjóra leikmenn í úrvalsliðum á Norðurlandamótinu þetta árið. Tvo leikmenn hjá sextán ára strákum, einn hjá 18 ára konum og einn hjá 18 ára körlum. Kári Jónsson úr Haukum og Kristinn Pálsson úr Njarðvík voru valdir í úrvalslið 16 ára karla. Ingunn Embla Kristínardóttir úr Keflavík, var valin í úrvalslið 18 ára kvenna og þá var Dagur Kár Jónsson úr Stjörnunni valinn í úrvalslið 18 ára karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×