Körfubolti

Það var allt brjálað í höllinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Arnór og félagar fagna sæti í undanúrslitum.
Jón Arnór og félagar fagna sæti í undanúrslitum. Mynd/Twitter

„Þetta var yndislegt kvöld í alla staði. Þetta var hörkuleikur. Við vorum góðir frá byrjun og sterkari í lokin. Maður hafði einhvern veginn alltaf trú á því að við myndum taka þetta," sagði sigurreifur Jón Arnór Stefánsson í samtali við Vísi í kvöld.

Jón Arnór hefur ærna ástæðu til að fagna. Lið hans CAI Zaragoza er komið í undanúrslit í sterkustu körfuknattleiksdeild Evrópu eftir ótrúlegan sigur í þriggja leikja einvígi gegn Valencia í átta liða úrslitunum.

Fáir áttu líkast til von á því að Zaragoza gæti staðið í Valencia eftir fyrsta leik liðanna. Þá vann Valencia 38 stiga sigur en Jón Arnór og félagar jöfnuðu metin með sigri í þríframlengdum leik í Zaragoza. Í kvöld vannst sigur í Valencia 83-77.

„Það var allt brjálað í höllinni í Valencia í kvöld og ótrúlega gaman að fylgja eftir góðum leik í Zaragoza," segir Jón Arnór sem skoraði 13 stig í leiknum. Jón Arnór hefur farið á kostum í rimmunni gegn Valencia og raunar verið í fínu formi allt tímabilið.

Jón Arnór og félagar voru í rútunni á leiðinni heim til Zaragoza þegar blaðamaður heyrði í honum hljóðið. Hann sagði stemmninguna í rútunni góða.

„Menn eru hressir, búnir að fá sér tvo bjóra og svona. Ná sér hiður og hlusta á góða tónlist. Svo er það bara beint í bólið," segir Jón Arnór sem spilaði á sínum tíma með Valencia. Hann segir sigurinn enn sætari fyrir vikið enda minningarnar heldur súrar frá þeim tíma.

„Það gekk upp og ofan hjá mér hjá Valencia á sínum tíma. En einhverra hluta vegna færði þetta hús okkur lukku í kvöld.," segir Jón Arnór léttur.

Jón Arnór og félagar mæta stórliði Real Madrid í fimm leikja einvígi í undanúrslitum. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í úrslitin og er fyrsti leikurinn í rimmunni strax á fimmtudag.

Óhætt er að segja að Jón Arnór og liðsfélagar hans hjá CAI Zaragoza ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Real Madrid er eitt af allra stærstu félögum álfunnar og verður fróðlegt að sjá hvort Zaragoza takist að standa í Madrídingum.


Tengdar fréttir

Jón Arnór og félagar í undanúrslit

Jón Arnór Stefánsson skoraði 13 stig fyrir CAI Zaragoza þegar liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum spænska körfuboltans með 83-77 útisigri á Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×