Fótbolti

Mourinho hættir í lok leiktíðar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty

Jose Mourinho mun láta af störfum sem þjálfari Real Madrid í lok leiktíðar. Florentino Perez, forseti félagsins, greindi frá þessu á blaðamannafundi sem boðað var til í Madríd í dag.

Hávær orðrómur hefur verið uppi um að Mourinho myndi ekki verða áfram í brúnni hjá Real þrátt fyrir að vera samningsbundinn félaginu næstu tvö árin. Portúgalinn litríki hefur verið orðaður sterklega við stjórastöðuna hjá Chelsea á Englandi.

„Mourinho var ekki rekinn. Um er að ræða samkomulag okkar og hans. Nú var rétti tíminn til þess að ljúka samstarfinu," sagði Florentino Perez.

Undir stjórn Mourinho vann Real engan titil á leiktíðinni ef frá er talinn sigur á Barcelona á Real í árlegu uppgjöri deildar- og bikarmeistaranna síðastliðið haust. Liðið missti Spánarmeistaratitil sinn til Barcelona, féll úr keppni gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu og tapaði um helgina gegn Atletico Madrid í úrslitum spænska bikarsins.

Þá hefur Mourinho verið harðlega gagnrýndur fyrir að setja fyrirliða og einn dáðasta leikmann Real á bekkinn, markvörðinn Iker Casillas. Undir stjórn Mourinho varð Real bæði spænskur meistari og bikarmeistari. Liðið vann 127 leiki af 176 undir hans stjórn eða 72% þeirra.

Florentino Perez neitaði því að Real Madrid hefði þegar gengið frá munnlegu samkomulagi við nýjan þjálfara. Leonardo, yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG í Frakklandi, staðfesti í gær að Carlo Ancelotti, þjálfari liðsins, hefði óskað eftir því að yfirgefa félagið. Hans ósk væri að taka við Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×