Fótbolti

Ancelotti sakar leikmenn Real Madrid um værukærð

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Þungbúinn Ancelotti hefur áhyggur af varnarleiknum.
Þungbúinn Ancelotti hefur áhyggur af varnarleiknum. MYND:NORDIC PHOTOS/GETTY
Carlo Ancelotti þjálfari spænska stórliðsins Real Madrid er allt enn en ánægður með að lið sitt hafi næstum því kastað þriggja marka forskoti tvívegis frá sér á fjórum dögum í spænska fótboltanum.

Real Madrid vann báða leikina, Sevilla 7-3 í vikunni og Rayo Vallecano 3-2 í gær en í báðum leikjum missti Real þriggja marka forskot niður í aðeins eins marks forskot og það er Ancelotti allt annað en sáttur við.

„Hvernig við fáum þessi mörk á okkur í síðustu tveimur leikjum getur ekki verið tilviljun,“ sagði Ítalinn við fjölmiðla eftir leikinn í gær. „Varnarlega var seinni hálfleikur hörmung.

„Þetta er eitthvað sem við höfum rætt í búningsklefanum og ég get svarað almennt fyrir hér. Ég held að við þurfum að gera smávægilegar breytingar og losa okkur við yfirborðskennt hugarfar sem við sýnum stundum á vellinum.

„Lið með þessa hæfileika ætti ekki að eiga hættu á að tapa leik sem liði kemst í 3-0 í. Að halda að leikurinn sé búinn í stöðunni 3-0 er mikil mistök. Þetta er ekki fótbolti. Þetta hefur gerst tvisvar og ég er viss um að þetta gerist ekki aftur,“ sagði Ancelotti.

Real Madrid er sex stigum á eftir toppliði Barcelona og hefur fengið 16 mörk á sig í aðeins 12 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×