Fótbolti

Luís Enrique ekki búinn að velja aðalmarkvörð Barcelona

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marc-André ter Stegen var keyptur dýrum dómum frá Mönchengladbach.
Marc-André ter Stegen var keyptur dýrum dómum frá Mönchengladbach. vísir/getty
Luís Enrique, þjálfari Barcelona, er ekki búinn að ákveða hver mun standa á milli stanganna í fyrsta leik liðsins í spænsku 1. deildinni.

Börsungar keyptu tvo markverði í sumar; Þjóðverjann Marc-André ter Stegen frá Mönchengladbach og Sílebúann ClaudioBravo frá Real Sociead, til að búa til samkeppni, en þriðji markvörðurinn hefur blandast í baráttuna.

Það er hinn 25 ára gamli Spánverji JordiMasip sem Enrique tók úr B-liði Barcelona, en hann spilaði nær allan vináttuleikinn gegn HJK um helgina. Allir þrír eru búnir að spila á undirbúningstímabilinu.

„Ég er með þrjá frábæra markverði. Ég væri til í að vera alltaf í þessum vandræðum. Þjálfarar þurfa að taka svona ákvarðanir og ég verð að velja einn þó hinir tveir séu mjög góðir líka. Þetta verður erfitt fyrir þá og mig líka,“ segir Luís Enrique.

Sjálfur segist Masip vongóður um að hirða byrjunarliðsstöðuna og halda markvörðunum tveimur, sem kostuðu samtals um 25 milljónir evra, á bekknum.

„Eins og ég lít á þetta þá þarf maður bara að leggja mikið á sig og gera ákvörðunina erfiða fyrir stjórann. Og það ætla ég að gera,“ segir Jordi Masip.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×