Körfubolti

Sigur hjá Jóni Arnóri í endurkomunni í Meistaradeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í landsleik gegn Bosníu.
Jón Arnór Stefánsson í landsleik gegn Bosníu. vísir/anton
Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í spænska stórliðinu Unicaja Málaga unnu flottan útisigur á Cedevita Zagreb, 78-63, í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í körfubolta í kvöld.

Jón Arnór hefur tvisvar sinnum áður spilað í Meistaradeildinni, en það var með ítalska liðinu Lottomatica Roma tímabilin 2006/2007 og 2007/2008.

Hann spilaði tæpar sextán mínútur í kvöld og skoraði tvö stig, tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu. Bandaríkjamaðurinn Ryan Toolson var stigahæstur gestanna með 20 stig.

Meistaradeildin er sú sterkasta í Evrópu, en Málaga-liðið er í riðli með ALBA Berlín, CSKA Moskvu, Limoges CSP, Maccabi Tel Aviv og Zagreb-liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×