Enski boltinn

Launakröfur Di Maria voru of háar fyrir Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Di Maria.
Angel Di Maria. Vísir/Getty
Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, segir að það eina í stöðunni fyrir spænska félagið hafi verið að selja argentínska leikmanninn Angel Di Maria til Manchester United.

Manchester United setti nýtt breskt met þegar félagið borgaði 59,7 milljónir punda, 11,5 milljarða íslenskra króna, fyrir argentínska landsliðsmanninn.

Angel Di Maria fær 200 þúsund pund á viku í laun eða 38,6 milljónir íslenskra króna. Hann er þriðji launahæsti leikmaður Manchester United á eftir Wayne Rooney og Kólumbíumanninum Radamel Falcao.

„Di Maria? Ég var sammála félaginu í því máli. Stundum verður félagið að segja nei," sagði Carlo Ancelotti.

„Di Maria bað um mikla peninga og vildi yfirgefa okkur til að komast yfir þá. Félagið gat hreinlega ekki borgað honum það sem hann vildi," sagði Ancelotti.

Angel Di Maria er með 3 mörk og 3 stoðsendingar í fyrstu fimm leikjum sínum með Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur bæði skorað og lagt upp mark í þremur af þessum fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×