Körfubolti

Elvar Már fór á kostum á heimavelli Brooklyn Nets | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elvar Már Friðriksson var sjóðheitur.
Elvar Már Friðriksson var sjóðheitur. vísir/getty
LIU Blackbirds vann þriðja leikinn í röð í efstu deild bandaríska háskólakörfuboltans í nótt þegar liðið lagði Florida International á heimavelli, 69-58.

Leikurinn fór fram í Barcklays Center sem er heimavöllur NBA-liðsins Brooklyn Nets. Martin Hermannsson og Elvar Friðriksson spiluðu mjög vel í leiknum.

Florida-liðið komst yfir þegar rúmar tólf mínútur voru til leiksloka, 43-39, en LIU svaraði með 10-2 kafla þar sem Elvar Már skoraði meðal annars tvær þriggja stiga körfur.

Með því tóku Svartþrestirnir völdin í leiknum og innbyrtu sinn þriðja sigur í röð eftir að tapa sex fyrstu leikjum sínum.

Njarðvíkingurinn Elvar Már fann sig mjög vel á NBA-gólfinu og var stigahæstur á vellinum með 17 stig auk þess sem hann tók tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Martin Hermannsson, nýbakaður íþróttamaður Reykjavíkur, skoraði tíu stig, tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu. Elsta árs neminn Gerrell Martin heldur áfram að spila vel, en hann skoraði 15 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Hér að neðan má sjá brot úr leiknum þar sem Elvar Már er í aðalhlutverki, en hann setur meðal annars þriggja stiga körfu langt fyrir utan teig og afgreiðir tvö hraðaupphlaup á stórkostlegan máta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×