Fótbolti

James Rodriguez ristarbrotnaði í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Rodriguez.
James Rodriguez. Vísir/Getty
Kólumbíumaðurinn James Rodriguez ristarbrotnaði á hægri fæti í gær í sigri Real Madrid á Sevilla í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær.

James Rodriguez er á leiðinni í aðgerð og verður frá í að minnsta kosti tvo mánuði. Meðal leikja sem hann missir af eru báðir leikirnir við Schalke í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar.  

James Rodriguez kom Real Madrid í 1-0 á tólftu mínútu en varð að fara af velli á 27. mínútu leiksins. James Rodriguez var sendur strax upp á spítala þar sem hann var myndaður.

James hefur átt mjög flott fyrsta tímabil með Real Madrid en hann hefur skorað 12 mörk og gefið 10 stoðsendingar í öllum keppnum. Markið í gær var hans áttunda í spænsku úrvalsdeildinni.

Það er miðað við að leikmenn séu frá í tvo mánuði eftir svona aðgerð en það er langt frá því að vera algilt. Leikmenn hafa einnig þurft þrjá til fjóra mánuði til að ná sér.

James Rodriguez er hinsvegar ungur og líklegur til að koma til baka fyrir lokasprettinn á tímabilinu.

Sergio Ramos fór einnig meiddur af velli í gær en hann verður frá í þrjár vikur vegna tognunar aftan í læri.

James Rodriguez skorar hér markið sitt í gær. Hann spilar ekki næstu mánuðina.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×