Fótbolti

Sociedad vann í sjö marka leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Sociedad höfðu ástæðu til að fagna í dag.
Leikmenn Sociedad höfðu ástæðu til að fagna í dag. vísir/afp
Real Sociedad vann góðan sigur á Sevilla í miklum markaleik í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Lokatölur 4-3, Böskunum í vil.

Alfreð Finnbogason kom inn á sem varamaður á 81. mínútu en þá var staðan 2-3, Sevilla í vil.

Aðeins mínútu síðar setti Alejandro Arribas boltann afar klaufalega í eigið mark og jafnaði metin í 3-3. Það var svo fyrirliðinn Xabi Prieto sem tryggði Sociedad stigin þrjú með sínu öðru marki á lokamínútunni.

Imanol Agirretxe kom lærisveinum David Moyes yfir á 16. mínútu en Timothée Kolodziejczak jafnaði metin fyrir Sevilla tveimur mínútum fyrir hálfleik.

Xabi Prieto kom Sociedad öðru sinni yfir á 48. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Kólumbíski framherji Carlos Bacca jafnaði metin í 2-2 á 67. mínútu og níu mínútum síðar kom Kevin Gameiro Sevilla yfir með marki úr vítaspyrnu.

Real Sociedad er í 13. sæti spænsku deildarinnar með 24 stig en Sevilla er í því fimmta með 45 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×