Körfubolti

Gunnar og félagar komust ekki í úrslitakeppnina | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gunnar Ólafsson spilaði ekki í nótt.
Gunnar Ólafsson spilaði ekki í nótt. vísir/getty
Keflvíkingurinn Gunnar Ólafsson verður ekki fyrsti Íslendingurinn til að spila í NCAA-mótinu í bandarísku háskólakörfunni. Allavega ekki á þessu ári.

Liðsfélagar Gunnars í St. Francis-háskólanum í Brooklyn spiluðu til úrslita í NEC-deildinni í nótt gegn Robert Morris-skólanum, en Gunnar var ekki í leikmannahópnum.

Heimamenn í St. Francis, sem unnu sína deild með 15 sigra og þrjú töp, voru yfir í hálfleik, 35-29, og stefndi allt í að Robert Morris væri að tapa fjórða úrslitaleiknum á síðustu fimm árum.

En gestirnir sóttu í sig veðrið í seinni hálfleik sem þeir unnu með níu stigum og leikinn með þremur stigum, 66-63. Þar með komu þeir í veg fyrir fyrstu ferð St. Francis í 64 liða úrslit háskólakörfuboltans, hið svokallaða „March Madness“.

Tyreek Jewell, leikmaður St. Francis, fékk tækifæri til að jafna leikinn með þriggja stiga skoti þegar 2,4 sekúndur voru eftir en hann hitti ekki. Jewell var engu að síður besti leikmaður heimaliðsins í nótt og skoraði 19 stig.

Í gær töpuðu Kristófer Acox og félagar hans í Furman-háskólanum úrslitaleiknum í suðurdeild háskólaboltans og því endanlega ljóst núna að enginn Íslendingur verður með í NCAA-mótinu að þessu sinni.

Hér að neðan má sjá það helsta úr leiknum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×