Körfubolti

Landsliðsþjálfari Bandaríkjanna vann háskólatitilinn í fimmta sinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mike Krzyzewski klippir netið af körfunni eins og siður er.
Mike Krzyzewski klippir netið af körfunni eins og siður er. vísir/getty
Duke Blue Devils varð bandarískur háskólameistari í körfubolta í nótt þegar liðið lagði Wisconsin Badgers, 68-63, fyrir framan 70.000 manns á Lucas Oil-vellinum í Indianapolis þar sem NFL-lið Indianapolis Colts spilar heimaleiki sína.

Staðan var jöfn í hálfleik, 31-31, en ungt lið Duke var sterkara á lokasprettinum og innbyrti fimm stiga sigur.

Þetta er fimmti meistaratitlinn sem Duke vinnur en allir hafa þeir unnist undir stjórn þjálfarans magnaða Mike Krzyzewski. Hann hefur þjálfað Duke síðan 1980 og tólf sinnum komið liðinu í undanúrslit NCAA-mótsins.

Krzyzewski hefur vanalega byggt liðin sín upp á eldri leikmönnum sem eru í háskóla í meira en eitt ár, en að þessu sinni voru fjórir nýliðar í byrjunarliðinu og áttu þeir allir góðan leik.

Jahlil Okafor og Frank Kaminsky eigast við í nótt.vísir/getty
Þjálfarinn mun væntanlega þurfa að kveðja þrjá þeirra á næstu vikum en búist er við að þeir fari í nýliðaval NBA-deildarinnar.

Tyus Jones var stigahæstur á vellinum en hann skoraði 23 stig fyrir Duke. Miðherjinn Jahlil Okafor skoraði 10 stig og átti í basli með kollega sinn Frank Kaminsky í liði Wisconsin. Kaminsky skoraði 21 stig og tók 12 fráköst en hann var kjörinn besti leikmaður háskólaboltans í ár.

Taldar eru miklar líkur á að Okafor verði valinn fyrstur í nýliðavalinu í NBA í ár og háskólaferilll hans verði aðeins eitt ár.

Mike Krzyzewski er ekki bara þjálfari Duke heldur einnig þjálfari bandaríska landsliðsins. Eftir að hann tók við stjórn þess árið 2006 hefur það verið ósigrandi og unnið Ólympíuleikana tvívegis og HM tvisvar sinnum í röð.

Hann hefur tvisvar sinnum verið tekinn inn í frægðarhöll bandaríska körfuboltans; fyrst árið 2001 fyrir magnaðan þjálfaraferil sinn og aftur árið 2010 sem hluti af Draumaliðinu, en Krzyzewski var aðstoðarþjálfari hjá Draumaliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum 1992




Fleiri fréttir

Sjá meira


×