Körfubolti

Kanínurnar fengu enga medalíu í fyrsta sinn í tíu ár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Craig Pedersen stendur í ströngu með strákana okkar í sumar.
Craig Pedersen stendur í ströngu með strákana okkar í sumar. vísir/andri marinó
Svendborg Rabbits tapaði fyrir Team FOG Næstved, 104-103, í leiknum um bronsverðlaunin í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld.

Kanínurnar, sem þjálfaðar eru af Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands, fóru vel af stað og voru 53-42 yfir í hálfleik.

Næstved svaraði með flottum þriðja leikhluta sem liðið vann, 33-22, og staðan orðin jöfn fyrir síðasta fjórðunginn.

Í honum komst Næstved í 104-97 þegar ein mínúta og 39 sekúndur voru eftir, en Kanínurnar skoruðu sex stig í röð og minnkuðu muninn í eitt stig, 104-103.

Kanínurnar komust þó ekki nær og fagnaði Team FOG Næstved bronsinu, en til úrslita spila Bakken Bears og Horsens.

Þetta er í fyrsta skipti í tíu ár sem Kanínurnar vinna ekki til verðlauna í dönsku úrvalsdeildinni, en undanfarin níu tímabil hefur liðið náð einu af þremur efstu sætunum.

Craig Pedersen fær ekkert sumarfrí því næst tekur við hjá honum stærsta körfuboltasumar íslenska landsliðsins í sögunni. Hann fer nú í að undirbúa Ísland fyrir Smáþjóðaleikana og svo auðvitað EM 2015 í Berlín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×