Íslenski boltinn

Ásgeir Börkur: Er íþróttamaður sem spilar þungarokk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásgeir Börkur Ásgeirsson, fyrirliði Fylkis í Pepsi-deild karla í fótbolta, þykir harður í horn að taka inni á vellinum en hann hefur leikið í atvinnumennsku bæði í Noregi og Svíþjóð.

Ásgeir er ekki maður einhamur en hann er einnig söngvari í þungarokkshljómsveit.

„Þetta er mín önnur ást og hefur verið lengi,“ sagði Ásgeir í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2 en Gaupi heimsótti kappann á hljómsveitaræfingu.

„Þetta er nauðsynlegt og ég þarf á þessu að halda. Þetta er skemmtilegt og gefandi,“ sagði Ásgeir sem byrjaði snemma að syngja.

„Ég byrjaði í hljómsveit í 7. bekk sem spilaði bara cover-lög. Svo byrjaði ég í þessu fyrir alvöru árið 2007. Ég hef alltaf haft gaman að þessu og get ekki skilið við þetta,“ sagði Ásgeir en er hann reiður þegar hann þenur raddböndin?

„Það eru alls konar tilfinningar sem leysast úr læðingi, ekki bara reiði heldur allt saman, allur skalinn. Stundum er gott að losa um þessar tilfinningar.“

Ásgeir er sem áður segir fyrirliði Fylkis og í lykilhlutverki hjá Árbæjarliðinu. En hvernig gengur að sameina boltann og tónlistina?

„Maður verður að velja og hafna í þessu. Þótt maður sé rokkari og hafi verið alla ævi er maður íþróttamaður og ég hef alltaf lifað þannig. Það hefur ekkert truflað mig,“ sagði Ásgeir en innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×