Íslenski boltinn

Pétur Viðars á förum frá FH | Á leið til Ástralíu í nám

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pétur hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með FH og einu sinni bikarmeistari.
Pétur hefur tvívegis orðið Íslandsmeistari með FH og einu sinni bikarmeistari. mynd/fh.is
Miðvörðurinn Pétur Viðarsson klárar ekki tímabilið með FH en yfirgefur herbúðir Fimleikafélagsins í júlí og heldur til náms í Ástralíu. Þetta kemur fram á Fótbolta.net í dag.

Pétur, sem er fæddur árið 1987, hefur leikið 108 leiki með FH í Pepsi-deildinni og verið fastamaður í liðinu undanfarin ár.

„Ég verð farinn í júlí. Þetta var ekki auðvelt en er ekki skyndiákvörðun. Þetta hefur verið langt ferli og mér fannst þetta rétti tíminn. Ég hef átt góðan feril hérna heima og gert mikið með FH sem ég er sáttur við,“ sagði Pétur við Fótbolta.net en hann ætlar að leggja stund á MBA-nám í viðskiptafræði.

Þrátt fyrir að Pétur sé á útleið eru skórnir ekki komnir upp í hillu að hans sögn.

„Mér fannst kominn tími á næsta skref og svo er aldrei að vita nema maður komi aftur heim og haldi áfram að spila. Í bili verður þetta allavega námið og svo hef ég viljað fara út. Þetta er tveggja ára nám og ég verð 29 ára þegar því lýkir, ef ég kem heim þá get ég alveg ímyndað mér að halda áfram í boltanum,“ sagði Pétur ennfremur.

FH er ágætlega sett með miðverði en auk Péturs eru þeir Guðmann Þórisson, Kassim Doumbia og Brynjar Ásgeir Guðmundsson á mála hjá félaginu.

Pétur hefur leikið alla þrjá leiki FH í Pepsi-deildinni til þessa en liðið tapaði fyrir Val í gær.


Tengdar fréttir

Valsmenn sungu um að deyja fyrir klúbbinn | Myndband

Valsmenn voru harðlega gagnrýndir eftir slæmt tap á móti nýliðum Leiknis í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar en þeir sýndu styrk sinn í sigri á Íslandsmeistaraefnunum úr FH í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×