Íslenski boltinn

Milos kallaður fyrr heim vegna leikbanns Ólafs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Milos Milojevic, annar þjálfara Víkings, mun stýra liðinu þegar það mætir Fjölni á heimavelli í kvöld.

Milos hefur verið staddur á þjálfaranámskeiði í Serbíu síðan í lok síðasta mánaðar og var síðast á hliðarlínunni þegar Víkingur tapaði fyrir Leikni, 2-0, þann 26. maí.

Ólafur Þórðarson, sem stýrir Víkingi í sameiningu með Milos,

var rekinn upp í stúku er Víkingar töpuðu fyrir Breiðabliki um síðustu helgi og verður í banni í kvöld.

„Hann kom viku fyrr heim en áætlað var fyrst Óli verður í banni í kvöld,“ sagði Heimir Gunnlaugsson, varaformaður knattspyrnudeildar Víkings, í samtali við Vísi í dag.

„Hann náði að semja um að fá að sleppa síðustu viku námskeiðisins og verður með liðinu í kvöld,“ sagði hann.

Í fjarveru Milos hefur Víkingur spilað þrjá deildarleiki og tapað þeim öllum. Hins vegar hefur liðið unnið báða sína bikarleiki á þeim tíma og er komið áfram í 8-liða úrslitin þar sem Víkingar mæta Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×