Íslenski boltinn

Víkingur semur við serbneskan framherja

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Vladimir Tufegdzic þarf að skora mörk fyrir Víkinga.
Vladimir Tufegdzic þarf að skora mörk fyrir Víkinga.
Pepsi-deildarlið Víkings er búið að ganga frá samningi út tímabilið við serbneska framherjann Vladimir Tufegdzic.

Hann kemur til Víkinga frá serbneska 1. deildar liðinu Sindelic Beograd þar sem hann skoraði sex mörk í þrettán leikjum á seinni helming síðustu leiktíðar.

„Hann kemur til landsins í dag og verður löglegur þegar glugginn opnar 15. júlí,“ segir Heimir Gunnlaugsson, formaður meistaraflokksráðs Víkings, í samtali við Vísi.

Tufegdzic æfir með 2. flokki fyrstu dagana þar sem Víkingar halda til Slóveníu á morgun og mæta FC Koper í seinni leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn.

Víkingar vonast vitaskuld til að Serbinn aðstoði liðið við markaskorun, en Fossvogsliðinu hefur gengið erfiðlega fyrir framan markið að undanförnu.

Víkingar hafa aðeins skorað eitt mark í síðustu þremur leikjum í öllum keppnum, en markahæstu leikmenn liðsins í Pepsi-deildinni eru Rolf Toft og Igor Taskovic með þrjú mörk hvor.

Víkingur féll úr leik í bikarnum í gærkvöldi þegar liðið tapaði fyrir Val, 2-1, en Víkingar eru einnig í fallbaráttu í Pepsi-deildinni með níu stig eftir tíu umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×