Fótbolti

Arda Turan: Spenntastur að spila við hlið Iniesta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arda Turan var kynntur til leiks hjá Barcelona í dag.
Arda Turan var kynntur til leiks hjá Barcelona í dag. vísir/getty
Arda Turan er spenntur fyrir því að spila við hlið Andrés Iniesta hjá Barcelona.

„Ég hef alltaf sagt að Lionel Messi sé sá besti. En Iniesta er átrúnaðargoð mitt. Ég get ekki beðið eftir því að spila með honum,“ sagði Turan sem gekk í raðir Barcelona frá Atlético Madrid á dögunum.

Turan segist ekki vera arftaki Xavi Hernández sem kvaddi Barcelona eftir síðasta tímabil eftir 24 ára dvöl hjá Katalóníuliðinu.

„Það getur enginn komið í stað Xavi,“ sagði Turan sem er fyrirliði tyrkneska landsliðsins.

„Ég er kominn hingað til að gera mitt allra besta en ég er ekki kominn til að fylla skarð Xavi. Hann er goðsögn í fótboltaheiminum og mun alltaf vera eins konar tákn fyrir Barcelona.“

Turan getur ekki byrjað að spila með Börsungum fyrr en á næsta ári vegna félagaskiptabannsins sem Barcelona var sett í. Hann segir það vissulega erfiða stöðu.

„Það verður erfitt að spila enga leiki í sex mánuði. Ég vil bara aðlagast liðinu sem fyrst,“ sagði Turan sem varð Spánarmeistari með Atlético Madrid í fyrra.

„Það gladdi mig hversu mikinn áhuga Luis Enrique (knattspyrnustjóri Barcelona) sýndi á að fá mig til liðsins. Ég mun gera allt til að endurgjalda það traust sem hann sýndi mér.“


Tengdar fréttir

Turan keyptur til Barcelona

Miðjumaðurinn sterki verður að bíða þar til í janúar til að fá að spila með félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×