Fótbolti

Hógvær Neymar: Nenni ekki að horfa á fótbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar í leik með Barcelona.
Neymar í leik með Barcelona. Vísir/Getty
Brasilíumaðurinn Neymar nýtur sín á vellinum hjá Barcelona en viðurkennir þó að þess fyrir utan sé hann lítill áhugamaður um íþróttina. Hann nennir ekki að horfa á leiki í sjónvarpi.

Neymar hefur skorað átta mörk í síðustu sex leikjum sínum með Barcelona sem er jafnt Real Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar. Liðin mætast í El Clasico síðar í mánuðinum.

„Ég er ekki hrifinn af því að horfa á fótbolta þegar ég er ekki að spila með Barcelona. Ég horfi ekki á leiki með Real Madrid. Ég nýt þess ekki að horfa á önnur lið.“

Neymar var spurður hvaða álit hann hefði á liði Real Madrid en svar hans var einfalt. „Ég get ekki gefið skoðun mína á einhverju sem ég hef ekki séð.“

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo í leik Barcelona og Real Madrid. Liðin mætast 21. nóvember.Vísir/Getty
Þeir Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa einokað kosninguna um besta knattspyrnumann heims síðustu árin en Neymar er ekki að velta því mikið fyrir sér.

„Fyrir mér er ekkert mikilvægara en að vinna titla. Gullboltinn hefur alltaf verið á milli Cristiano Ronaldo og Messi. Þeir eru leikmenn frá annarri plánetu.“

„Ég velti þessum hlutum ekki fyrir mér. Ég vil bara hjálpa liðsfélögunum mínum,“ sagði hinn hógværi Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×