Körfubolti

Martin skoraði 15 stig í framlengdum tapleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson spilaði vel.
Martin Hermannsson spilaði vel. mynd/LIU
Martin Hermannsson og félagar í LIU Brooklyn-háskólanum þurftu að sætta sig við tap, 89-84, eftir framlengingu gegn Fordham-háskólanum þegar liðin mættust í nótt.

Gestirnir frá Brooklyn spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik og voru níu stigum yfir í hálfleiknum, 31-22. Varnarleikurinn var til mikillar fyrirmyndar en Fordham-menn gengu á lagið í síðari hálfleik.

Mun meira var skorað í seinni hálfleiknum sem heimamenn í Fordham unnu, 50-41, en það var LIU-liðið sem þurfti að tryggja sér framlengingu á lokasprettinum eftir að Fordham var búið að taka forystuna.

Heimamenn í Fordham, sem eru búnir að vinna sjö af átta leikjum sínum í háskólakörfunni í vetur, voru svo sterkari í framlengingunni og unnu fimm stiga sigur, 89-84.

Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson var einn þriggja leikmanna LIU sem komst í tveggja stafa tölu, en hann skoraði fimmtán stig og gaf fimm stoðsendingar.

Martin spilaði 43 mínútur af 45, mest allra í liðinu, hitti úr fimm af tíu skotum sínum, setti niður öll fjögur vítaskotin og tók tvö fráköst.

LIU er búið að vinna fjóra leiki og tapa þremur en liðin eru ekki enn byrjuð að keppa innan sinna deilda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×