Fótbolti

Börsungar rólegir gegn botnliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi á ferðinni í leiknum í dag.
Messi á ferðinni í leiknum í dag. Vísir/Getty
Barcelona vann sinn fimmta leik í spænsku úrvalsdeildinni í röð þegar liðið lagði botnlið Levante að velli, 0-2, í dag.

Lionel Messi skoraði strax á 3. mínútu eftir frábært samspil Börsunga en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Á 21. mínútu varð David Navarro svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark og staðan því orðin 0-1, Barcelona í vil.

Börsungar voru rólegir í leiknum í dag og það var ekki fyrr en á annarri mínútu í uppbótartíma sem Luis Suárez gulltryggði sigur spænsku meistaranna eftir skyndisókn og sendingu Messi. Þetta var 20. deildarmark Suárez í vetur en hann er markahæstur í spænsku deildinni.

Barcelona er nú með 54 stig í toppsæti deildarinnar, þremur stigum á undan Atlético Madrid. Börsungar eiga einnig leik til góða á Atlético sem vann 3-1 sigur á Eibar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×