Fótbolti

Gary Neville: Ein versta lífsreynsla mín á ferlinum

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Gary Neville gat lítið gert í þessu í gær.
Gary Neville gat lítið gert í þessu í gær. vísir/getty
Gary Neville hefur ekki átt sjö dagana sæla á Spáni síðan hann tók við Valencia í desember, en í gær þurfti hann að ganga í gegnum gríðarlega niðurlægingu á Nývangi.

Neville mætti með sína menn til leiks á móti stórskotaliði Barcelona í fyrri leik liðanna í spænska Konungsbikarnum og tapaði, 7-0.

Luis Suárez skoraði fjögur mörk og Lionel Messi þrjú í þessari rassskellingu á Nývangi og þarf í raun ekkert að spila seinni leikinn. Barcelona er á leið í úrslit þriðja árið í röð.

„Ég á ekki eftir að sofa vel í kvöld. Þetta er ein versta lífsreynsla mín á fótboltaferlinum,“ sagði Gary Neville eftir leikinn.

Snemma eftir leikinn fór kassamerkið #Nevilleveteya að verða vinsælt á Twitter, en það þýðir einfaldlega: „Neville farðu núna.“

„Ég efaðist um sjálfan mig fyrir 18 árum en eftir það fann ég leið til að komast í gegnum svona lífsreynslur. Það er í lagi með mig,“ sagði Neville sem ætlar ekki að hætta.

„Ég finn mest til með stuðningsmönnunum. Þeir verðskulda ekki svona frammistöðu. Þetta er óásættanlegt og við verðum að koma okkur í stand mjög fljótt. Við verðum að vinna næsta leik á móti Betis sem ég vildi óska að byrjaði eftir tíu mínútur,“ sagði Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×