Körfubolti

Rétt ákvörðun að brjótast í gegnum vegginn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson hefur spilað frábærlega á tímabilinu og hann gæti fært sig til Evrópu í sumar ef spennandi tilboð berst.
Martin Hermannsson hefur spilað frábærlega á tímabilinu og hann gæti fært sig til Evrópu í sumar ef spennandi tilboð berst. vísir/Stefán
„Það er alltaf gaman að fá verðlaun og finna fyrir því að tekið er eftir manni en sigrarnir hjá liðinu eru miklu mikilvægari ef við ætlum okkur að gera eitthvað á þessari leiktíð,“ segir Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, í viðtali við Fréttablaðið, en hann var kjörinn leikmaður vikunnar í þriðja sinn á tímabilinu í norðausturdeild bandaríska háskólaboltans á dögunum.

Martin, sem spilar með LIU Brook­lyn, átti frábæra tvo leiki í síðustu viku þar sem hann skoraði að meðaltali 18 stig, tók níu fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal þremur boltum í tveimur sigurleikjum LIU. Sigrarnir voru líka mikilvægir fyrir liðið því það er nú öruggt inn í úrslitakeppni deildarinnar í baráttu um eina lausa sætið í lokamótinu, March Madness.

„Við erum klárlega með nógu gott lið til að vinna þessa deild. Nú erum við búnir að sópa toppliðinu sem var spáð titlinum. Í síðustu tveimur leikjum erum við að átta okkur á hversu gott lið við erum með. St. Francis sem við unnum síðast er besta varnarliðið í deildinni en við skoruðum 82 stig á það. Sóknin er ekki vandamálið hjá okkur heldur vörnin,“ segir Martin.

Draumur hans, eins og allra háskólastráka, er að spila í lokamótinu. „Það yrði þvílík upplifun. Liðið sem vann okkar deild í fyrra mætti Duke. Það væri ekki leiðinlegt að mæta þannig risaskóla því í lokamótinu uppgötvast alltaf nýjar stjörnur.“

Lenti á vegg

Martin stóð sig vel í fyrra og skoraði þá tíu stig, tók 3,8 fráköst og gaf 3,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Nú er hann að skora 16 stig að meðaltali í leik, taka 4,3 fráköst og gefa 4,4 stoðsendingar. Hann er einn af bestu leikmönnum norðausturdeildarinnar, en hver er stóri munurinn á þessum árangri milli tímabila?

„Ég lenti á vegg í fyrra. Ég kom hingað úr íslensku deildinni þar sem maður var svakalegur karl en hérna snýst þetta svo mikið um varnarleikinn. Öll liðin eru líka búin að skoða þig inn og út og vita hvað þú ætlar að gera í hverri sókn,“ segir Martin, sem kvaddi Ísland sem Íslandsmeistari með KR og besti leikmaður Íslandsmótsins.

„Ég átti í erfiðleikum því hinir leikmennirnir voru sterkari og fljótari. Ég ákvað því í sumar að gefa mig allan í landsliðsundirbúninginn og var mikið að vinna með Gunnari Einarssyni [einkaþjálfara og fyrrverandi leikmanni Keflavíkur]. Ég fann mikinn mun á mér líkamlega. Svo var líka egóbúst að vera valinn í landsliðið og fá mínútur á EM.“

Íþróttir snúast líka að stórum hluta um andlega þáttinn og bakvörðurinn úr Vesturbænum er vel meðvitaður um það. „Maður þarf bara að vinna með hausinn á sér og átta sig á því hvað maður getur. Maður þarf bara að fara í alla þessa leiki fullur sjálfstrausts og hafa trú á að maður sé betri en þessir gaurar,“ segir Martin.

Martin fór með íslenska landsliðinu á Evrópumótið og spilaði þar við suma bestu körfuboltamenn heims.Vísir/EPA
Íhugaði að skipta

Hávær orðrómur var uppi í sumar þess efnis að Martin ætlaði ekki að mæta aftur til LIU heldur mögulega finna sér lið í Evrópu eða jafnvel skipta um skóla í Bandaríkjunum. Martin hélt spilunum þétt að sér í sumar þegar gengið var á hann sem var skynsamlegt þar sem hann ákvað að fara aftur til LIU og spila í stóra eplinu.

„Það kom alveg upp í kollinn hjá mér að breyta til. Það eru hlutir hérna sem fara í taugarnar á mér og ég er ekki alltaf nógu sáttur. Kaninn er bara öðruvísi en Evrópubúinn. Það kom já alveg til greina að fara eitthvað annað,“ segir Martin sem tók að því er virðist, miðað við gengið í vetur, hárrétta ákvörðun.

„Þegar ég hugsaði mig betur um ákvað ég að taka eitt ár í viðbót því maður hefur heyrt að fyrsta árið sé mjög erfitt hérna. Það tekur tíma að koma sér inn í hlutina. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun að vera áfram,“ segir Martin.

Það þarf aftur á móti ekki að fara svo að KR-ingurinn mæti til leiks næsta vetur ef áhuginn verður mikill frá Evrópu í sumar. Hann viðurkennir að það komi vel til greina að skoða spennandi tilboð handan hafsins.

„Alveg klárlega. Maður finnur fyrir miklum áhuga úr öllum áttum. Fólk er að hafa samband sem er eðlilegt þegar vel gengur. Ég reyni bara að einbeita mér að liðinu núna og sé svo til hvað gerist eftir tímabilið,“ segir Martin.

Martin saknar Elvars Más en fær þó mikið af gestum.vísir/daníel
Kærastan mikið úti

Martin var nýkominn úr síðbúnum morgunmat og að gera sig kláran fyrir æfingu þegar Fréttablaðið heyrði í honum, en hann var að undirbúa sig fyrir leik gegn Robert Morris-háskólanum í Pittsburgh í gær. Það var létt yfir Martin sem er eini Íslendingurinn í liðinu núna eftir að Elvar Már Friðriksson lét gott heita í Brooklyn og skipti yfir til Miami.

„Það hjálpaði mikið að vera með Elvari í fyrra. Ég var samt ekkert smeykur við að koma út aftur því ég var búinn að koma mér inn í allt saman hérna,“ segir Martin aðspurður hvernig það sé að vera eini Íslendingurinn.

„Ég er samt aldrei alveg einn. Kærastan er mikið hjá mér, fjölskyldan kemur í næstu viku og svo er stöðugur ferðamannastraumur hingað út. Það er auðvelt að koma því þetta eru ekki 2-3 flug,“ segir Martin.

Það var ekki hægt að kveðja án þess að spyrja hvernig Martin fyndist faðir hans, Hermann Hauksson, taka sig út í sérfræðingahlutverkinu í Domino’s-körfuboltakvöldi.

„Hann er gríðarlega flottur og góður að koma fram. Pabbi veit alveg hvað hann syngur og maður er bara hrikalega stoltur af honum,“ segir Martin sem horfir mikið á íslenskar íþróttir úti. „Ég náði að redda þessu þannig að ég get horft á Stöð 2 Sport. Það getur alveg bjargað fyrir mann deginum að sjá beinu útsendingarnar úr körfunni og svo þáttinn sem er alveg geggjaður. Ég er svo tryggur íslensku sjónvarpi að ég horfði meira að segja á Super Bowl-leikinn á Stöð 2 Sport hér úti í Bandaríkjunum,“ segir Martin Hermannsson.


Tengdar fréttir

Martin valinn leikmaður vikunnar í NEC-deildinni

Íslenski landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson átti frábæra viku með körfuboltaliði LIU Brooklyn skólans og hann var í kvöld valinn leikmaður vikunnar í NEC-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×