Körfubolti

Jakob Örn frábær í sigri Borås í framlengdum leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn var frábær í liði Borås í kvöld.
Jakob Örn var frábær í liði Borås í kvöld. mynd/borås basket
Jakob Örn Sigurðarson, landsliðsmaður í körfubolta, og félagar hans í Borås Basket unnu útisigur á Jämtland, 101-93, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Fyrirfram var búist við þægilegum sigri Borås sem var fimm sætum og fjórtán stigum fyrir ofan Jämtland fyrir leikinn.

Heimamenn byrjuðu vel og unnu fyrsta leikhluta, 23-16, en Borås svaraði með 30-19 í öðrum leikhluta og var Jämtland yfir, 42-36, þegar liðin gengu til búningsklefa. Aðeins tveimur stigum munaði á liðunum fyrir þriðja leikhlutann, 63-61, en í honum náðu heimamenn mest átta stiga forskoti, 75-67.

Mikil spenna var á lokamínútunum, en staðan var 83-81 fyrir heimamenn þegar 30 sekúndur voru eftir og þurfti Borås því körfu í lokasókn sinni til að komast í framlengingu eða vinna leikinn.

Borås leitaði til íslenska landsliðsmannsins Jakobs Sigurðarsonar sem jafnaði metin í 83-83 þegar átta sekúndur voru eftir. Jämtland náði ekki að tryggja sér sigurinn með lokaskotinu og því þurfti að grípa til framlengingar. Gestirnir voru sterkari aðilinn í framlengingunni þar sem Borås jók muninn jafnt og þétt og vann á endanum átta stiga sigur, 101-93.

Jakob Örn átti stórleik fyrir Borås og skoraði 22 stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Hann hitti úr sjö af níu skotum sínum úr teignum og tveimur af fimm þriggja stiga skotum.

Borås er eftir leikinn áfram í fjórða sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 30 stig eftir 24 leiki, fjórum stigum á eftir Luleå og fjórum stigum á undan Sundsvall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×