Fótbolti

Ronaldo orðinn næstmarkahæstur í sögu spænsku deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo fagnar einu marka sinna gegn Celta Vigo.
Ronaldo fagnar einu marka sinna gegn Celta Vigo. vísir/getty
Cristiano Ronaldo gerði sér lítið fyrir og skoraði fernu þegar Real Madrid burstaði Celta Vigo, 7-1, í spænsku 1. deildinni í fótbolta í gær.

Með þessum fjórum mörkum skaust portúgalski snillingurinn upp í 2. sætið á listanum yfir markahæstu leikmenn spænsku deildarinnar frá upphafi.

Ronaldo, sem hefur leikið með Real Madrid frá árinu 2009, hefur nú gert 252 mörk í aðeins 228 leikjum sem er ótrúleg tölfræði. Portúgalinn hefur því skorað 1,11 mörk að meðaltali í leik á ferli sínum á Spáni.

Ronaldo hefur skorað einu marki meira en Telmo Zarra gerði fyrir Athletic Bilbao á árunum 1940-55.

Efstur á listanum er Lionel Messi en hann hefur skorað 305 mörk frá því hann lék sinn fyrsta leik með Barcelona 2004. Messi og Ronaldo eru þeir einu af tíu efstu á markalistanum sem eru enn að spila.

Ronaldo er sem stendur markahæstur í spænsku deildinni á þessu tímabili með 27 mörk, tveimur mörkum á undan Börsungnum Luís Suárez.

Markahæstu leikmenn í sögu spænsku deildarinnar:

1. Lionel Messi (Barcelona) - 305 mörk

2. Cristiano Ronaldo (Real Madrid) - 252

3. Telmo Zarra (Athletic Bilbao) - 251

4. Hugo Sánchez (Atlético Madrid, Real Madrid, Rayo Vallecano) - 234

5. Raúl (Real Madrid) - 228

6. Alfredo di Stéfano (Real Madrid, Espanyol) - 227

7. César Rodríguez (Granada, Barcelona, Cultural Leonesa, Elche) - 223

8. Quini (Sporting Gijón, Barcelona) - 219

9. Pahino (Celta Vigo, Real Madrid, Deportino La Coruna) - 210

10. Edmundo Suárez (Valencia, Alcoyano) - 195




Fleiri fréttir

Sjá meira


×