Körfubolti

Þrettán stig frá Martin er LIU komst í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martin Hermannsson og félagar eru komnir í undanúrslit.
Martin Hermannsson og félagar eru komnir í undanúrslit. vísir/getty
Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfubolta, og félagar hans í LIU Brooklyn komust í undanúrslit norðausturdeildar bandaríska háskólakörfuboltans í nótt með sigri á Sacred Heart Pioneers, 84-76, á útivelli.

Brooklyn-liðið hafnaði í sjötta sæti deildarinnar en Sacred Heart í þriðja sæti. Eins og hefur sést á tímabilinu geta öll lið unnið alla hvort sem er á heimavelli eða útivelli og sýndu Martin og félagar það í nótt.

Þegar rétt rúm ein mínúta var eftir af leiknum í nótt var Brooklyn með þriggja stiga forskot, 77-74. Liðið skoraði sjö af næstu níu stigum af vítalínunni, þar af skoraði Martin tvö af þeim.

Martin skoraði í heildina þrettán stig í nótt auk þess sem hann tók fjögur fráköst, gaf sex stoðsendingar og stal þremur boltum.

LIU Brooklyn mætir efsta liði deildarinnar, Wagner, á laugardaginn. Martin og félagar þurfa ekkert að óttast toppliðið því þeir unnu Wagner í báðum leikjum tímabilsins.

Hitt Íslendingaliðið í deildinni, St. Francis í Brooklyn, er úr leik eftir tap á heimavelli gegn Mount St. Mary's, 60-51. Gunnar Ólafsson og Dagur Kár Jónsson leika með St. Francis sem hafnaði í fjórða sæti deildarinnar.

Gunnar var í byrjunarliðinu og skoraði þrjú stig á 34 mínútum auk þess sem hann tók fjögur fráköst, en Dagur Kár kom inn af bekknum og skoraði fjögur stig á sjö mínútum.


Tengdar fréttir

Martin valinn í lið ársins í NEC-deildinni

Martin Hermannsson var í dag valinn í fimm manna úrvalslið ársins í NEC-deild bandaríska háskólakörfuboltans en þetta er mikill viðurkenning á frábærri frammistöðu íslenska landsliðsmannsins í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×