Íslenski boltinn

Fjölnir fær danskan varnarmann á láni frá Silkeborg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tobias Sahlquist.
Tobias Sahlquist. mynd/fjölnir
Pepsi-deildarlið Fjölnis hefur fengið danska varnarmaninn Tobias Sajlquist að láni frá Silkeborg, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þessi tvítugi leikmaður er uppalinn hjá Midtjylland en hefur verið á mála hjá Silkeborg síðan 2013. Hann kom aðeins við sögu í þremur leikjum liðsins á fyrri hluta dönsku 1. deildarinnar. Hann spilaði fjóra leiki fyrir Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í fyrra þegar liðið féll aftur niður í 1. deildina.

Sahlquist er miðvörður, en Grafarvogsliðið vonast þá til að vera búið að finna nýtt miðvarðapar í þeim Daniel Ivanovski og Sahlquist. Fjölnir stóð uppi miðvarðalaust eftir síðustu leiktíð þegar Bergsveinn Ólafsson fór í FH og Jonatan Neftali yfirgaf einnig Grafarvogsliðið.

Sahlquist er fjórði erlendi leikmaðurinn sem Fjölnir semur við í vetur. Fyrir voru komnir Daniel Ivanovski, sem spilaði með liðinu fyrri hluta tímabils í fyrra, og miðjumennirnir Martin Lund Pedersen frá Danmörku og Igor Jugovic frá Króatíu.

Fjölnir hafnaði í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð. Liðið hefur misst mikið af sterkum leikmönnum.  Aron Sigurðarson fór til Tromsö, Bergsveinn Ólafsson í FH og Kennie Chopart í KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×