Íslenski boltinn

Skoraði tvisvar í eigið mark í sama leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ármann Pétur Ævarsson.
Ármann Pétur Ævarsson. Vísir/Arnþór
Ármann Pétur Ævarsson var markahæsti maður vallarins í leik Fjölnis og Þórs á gervigrasi Fjölnismanna í gær en það var engin ástæða fyrir Akureyringinn að fagna því.

Ármann Pétur Ævarsson skoraði nefnilega tvö mörk í eigið mark þegar Þórsliðið tapaði 5-1 á móti Pepsi-deildarliði Fjölnis.

Gunnar Helgason, dómari leiksins, skráði tvö af mörkum Fjölnis sem sjálfsmörk hjá Ármanni Pétri. Sjálfsmörkin komu Fjölni í 2-0 á 31. mínútu og í 4-1 á 48. mínútu. Jóhann Helgi Hannesson hafði minnkað muninn í 2-1 á 42. mínútu leiksins.

Hin mörk Fjölnis í leiknum skoruðu þeir Gunnar Már Guðmundsson á 15. mínútu,  Birnir Snær Ingason á 45. mínútu, Þórir Guðjónsson  á 62. mínútu og Ísak Atli Kristjánsson á 85. mínútu.

Fjölnir er í 3. sæti riðilsins með 6 stig úr fjórum leikjum en Þórsliðið er tveimur stigum og einu sæti neðar.

Fjölnismenn töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum en hafa síðan unnið tvo leiki í röð. Þórsarar unnu 5-0 stórsigur á Leikni F. í fyrsta leik en hafa síðan aðeins náð í eitt stig út úr þremur leikjum og markatala Akureyrarliðsins í þeim er 1-10.

Lokaleikur Þórsara í riðlinum er á móti botnliði Þróttar í næstu viku en Fjölnir spilar síðasta leikinn sinn á móti Leikni F. ekki fyrr en helgina eftir páska.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×