Handbolti

Arnór og félagar töpuðu toppslagnum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Vísir/AFP
Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Atlason og félagar í Saint Raphaël eru nú ellefu stigum á eftir toppliði París eftir þriggja marka tap á heimavelli í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liðanna í frönsku efstu deildinni í handbolta.

París vann leikinn 32-29 en liðið var mest með ellefu marka forystu í seinni hálfleiknum.

Arnór Atlason var með 2 mörk og 3 stoðsendingar í leiknum en öll mörkin hans komu í fyrri hálfleiknum. Arnór nýtti 2 af 6 skotum sínum í kvöld.

Róbert Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Parísarliðsins í kvöld en hann hefur fengið fá tækifæri á þessu tímabili og er á förum frá liðinu í vor.

Danska stórskyttan Mikkel Hansen var langatkvæðamestur með 11 mörk. Parísarliðið hefur unnið tólf deildarleiki í röð og á franska meistaratitilinn vísan.

Parísarliðið var 18-13 yfir í hálfleik en var komið með ellefu marka forystu, 26-15, eftir tólf mínútna leik í þeim seinni.

Saint Raphaël minnkaði muninn á lokakaflanum með því að vinna síðustu sextán mínúturnar 13-5.

Saint Raphaël hefur misst dampinn að undanförnu en liðið hefur aðeins náð í 1 stig út úr síðustu þremur leikjum sínum. Fyrir vikið hefur Parísarliðið nánast tryggt sér franska meistaratitilinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×