Körfubolti

Fullkomnir fjórir vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Breanna Stewart fagnar hér með félögum sínum.
Breanna Stewart fagnar hér með félögum sínum. Vísir/Getty
Breanna Stewart og félagar hennar í UConn, University of Connecticut, urðu í nótt bandarískir háskólameistarar í körfubolta en UConn-stelpurnar unnu þá sögulegan sigur.

UConn-liðið hafði mikla yfirburði í úrslitaleiknum í nótt og vann þar 82-51 sigur á Syracuse-háskólanum. Þetta var fjórða árið í röð sem UConn vinnur titilinn og alls í ellefta sinn í sögu skólans.

Breanna Stewart var valin best fjórða úrslitaleikinn í röð sem hafði aldrei gerst áður í karla- eða kvennaflokki.

Það hafði líka heldur aldrei gerst að leikmenn hafi orðið bandarískir háskólameistarar fjögur ár í röð en því náði Breanna Stewart ásamt liðsfélögum sínum Moriah Jefferson og Morgan Tuck.

UCLA vann reyndar sjö titla í röð í karlaboltanum frá 1967-73 en á þeim árum máttu leikmenn á fyrsta ári ekki vera með. Það náði því enginn að vinna fjóra titla á þeim árum.

Breanna Stewart var með 24 stig, 10 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 varin skot í úrslitaleiknum og endaði með 2676 stig, 1179 fráköst, 426 stoðsendingar og 414 varin skot á háskólaferli sínum.

Fjórföldu meistararnir voru heldur betur í aðalhlutverki í leiknum því Morgan Tuck var með 19 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og Moriah Jefferson var með 13 stig og 5 stoðsendingar. Saman voru þær þrjár því með 56 stig, 20 fráköst og 16 stoðsendingar í úrslitaleiknum.

Geno Auriemma, þjálfari UConn-liðsins, varð um leið fyrsti þjálfarinn til að vinna ellefu titla í bandaríska háskólaboltanum en fyrir leikinn var hann jafn John Wooden með tíu.

Það þykir nær öruggt að Breanna Stewart verði valin fyrst í WNBA-nýliðavalinu sem er framundan en næst á dagskrá hjá henni er atvinnumannaferill og að reyna að komast í Ólympíulið Bandaríkjanna fyrir leikana í Ríó í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×