Handbolti

Aron og félagar unnu í vítakeppni og komust í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Vísir/AFP
Aron Pálmarsson og félagar hans í ungverska liðinu Veszprém spila um meistaratitilinn í Seha-deildinni eftir sigur í undanúrslitum í kvöl.

Veszprém og Meshkov Brest frá Hvíta-Rússlandi gerðu 20-20 jafntefli í undanúrslitaleik sínum en í stað þess að framlengja var gripið til vítakastskeppni.

Veszprém vann vítakeppnina 4-1 og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum á sunnudaginn þar sem liðið mætir annaðhvort Vardar frá Makedóníu eða Zagreb frá Króatíu.

Aron Pálmarsson komst ekki á blað í leiknum en hann klikkaði á báðum skotum sínum. Hann tók ekki víti í vítakeppninni.

Cristian Ugalde og Laszlo Nagy voru markahæstir í liði með fimm mörk hvor en það var Cristian Ugalde sem tryggði liðinu framlengingu með því að jafna metin í lokin.

Momir Ilic, Gasper Marguc, Gergo Ivanscik og Mirsad Terzić skoruðu úr fjórum fyrstu vítunum í vítakeppnini og tryggðu Veszprém sigurinn.

Hvít-Rússarnir komu sér í góð mál með öflugum fyrri hálfleik sem þeir unnu 11-6. Meshkov Brest komst í 3-1, 8-3 og 11-5 í hálfleiknum.

Meshkov Brest var 18-14 yfir þegar tíu mínútur voru eftir en Veszprém vann lokamínútur leiksins 6-2 og tryggðu sér jafntefli. Cristian Ugalde og Laszlo Nagy skoruðu tvö síðustu mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×