Íslenski boltinn

Kristinn Jakobsson gerir sitt í að reyna að fjölga dómurum fyrir norðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Jakobsson.
Kristinn Jakobsson. Vísir/Daníel
Kristinn Jakobsson, fyrrum FIFA-dómari og einn besti knattspyrnudómari Íslands frá upphafi, verður á ferðinni fyrir norðan um næstu helgi og markmiðið er að fjölga knattspyrnudómurum á þessum hluta landsins.

Kristinn Jakobsson er nú formaður dómaranefndar KSÍ en hann mun á sunnudaginn heimsækja Norðurland, halda héraðsdómaranámskeið og vera með kynningu á breyttum áherslum á knattspyrnulögunum.

Unglingadómari hefur réttindi til þessa að dæma upp í 4. flokk og vera aðstoðardómari upp í 2. flokk. Héraðsdómari hefur aftur á móti rétt til þess að starfa sem dómari og aðstoðardómari upp í  meistaraflokk.  

Boðið verður upp á héraðsdómaranámskeið í Símey á Akureyri klukkan tíu á sunnudaginn eins og fram kemur í frétt á heimasíðu KSÍ en þar eru félögin á svæðinu beðin um að kynna námskeiðið vel innan sinna raða.

Sama dag kl. 14:00 verður verður kynning á breytingum á knattspyrnulögunum, sem eru verulegar að þessu sinni.

Félög í Pepsi-deild og 1. deild karla eru skyldug samkvæmt leyfiskerfinu að mæta á fund vegna dómaramála á ári hverju og er þessi kjörið tækifæri til að félögin geti uppfyllt það ákvæði.  

Knattspyrnusambandið hvetur öll félög á Norðurlandi eru hvött til þess að senda fulltrúa á kynninguna.

Krsitinn Jakobsson dæmdi í efstu deild í 21 ár og samtals 277 leiki. Hann var kosinn besti dómari Pepsi-deildar karla á sínum síðasta tímabili og fékk þau verðlaun í tíunda sinn.



Dagskráin á sunnudaginn 17. apríl:

10:00 Símey. Þórsstíg 4 Akureyri. Héraðsdómaranámskeið.

14:00 Símey. Þórsstíg 4 Akureyri. Breytingar á knattspyrnulögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×