Körfubolti

Sautján ára strákur með NBA í sjónmáli var í raun 30 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jonathon Nicola.
Jonathon Nicola. Mynd/Youtube
Framtíðin var björt hjá hinum sautján ára Jonathon Nicola sem hafði slegið í gegn með körfuboltaliði Windsor-Essex menntaskólans. En nú hefur komið í ljós að hann er að detta inn á fertugsaldurinn en ekki bílprófsaldurinn.

Kanadíska landamæralögreglan hefur nú handtekið umræddan Jonathon Nicola sem hún telur að sé í raun 30 ára gamall en ekki sautján ára eins og hann sagðist vera.

Hann spilaði eins og karlmaður meðal drengja og nú vita menn af hverju. Það var ekki ótrúlegur þroski og karlmannlegur styrkur sem hann bjó yfir heldur var hann í raun fullvaxinn karlmaður.

Jonathon Nicola er 206 sentímetrar á hæð, 91 kíló á þyngd og notar skó númer 50. Hann var handtekinn fyrir að brjóta gegn reglum innflytjenda í Kanada.

Það er hægt að lesa um svindlið hans Jonathon Nicola bæði í staðarblaðinu Windsor Star sem og í New York Daily News.

Nicola sótti um skólavist í umræddum skóla í Windsor í Ontario fylki þegar hann kom til Kanada frá Suður-Súdan fyrir sex mánuðum síðan.  Hann sagðist í viðtali fyrr í vetur að hann hafi flúið Suður Súdan vegna stríðsins og vesaldarinnar í landinu og hafi ætlað sér að finna sér betra líf í Kanada.

Það tók hann sex mánuði að fá námsmanna vegabréfsáritun í Kanada en nú hefur komið í ljós að hann gaf upp rangar upplýsingar þegar hann sótti um.

Nicola bjó hjá þjálfaranum Pete Cusumano í gegnum góðgerðasamtökin Canada Homestay sem hjálpa erlendum nemendum að finna heimili.

Pete Cusumano var svo ánægður með strákinn að í viðtali í janúar þá talaði hann um að vegna þess að Nicola væri svo góður leikmaður á þessum aldri þá ætti hann möguleika á því að komast í NBA.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með umræddum Jonathon Nicola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×