Íslenski boltinn

Indriði: Alltaf á milli tannanna hjá fólki

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Indriði í baráttunni í kvöld
Indriði í baráttunni í kvöld vísir/anton brink
„Maður þarf alltaf á sigri að halda og þetta var kærkomið. Sanngjarn sigur fannst mér,“ sagði Indriði Sigurðsson fyrirliði KR eftir sigurinn á Val í kvöld í Pepsí deild karla í fótbolta.

„Það er alltaf pressa í Vesturbænum. Þó við séum efstir, neðstir eða um miðja deild þá erum við á milli tannanna hjá fólki sem er ekki í kringum félagið. Það er hluti af þessu en það er mikið skemmtilegra að spila undir pressu heldur en að spila fyrir ekki neitt.

„Við tökum pressuna og nýttum okkur hana hér í kvöld,“ sagði Indriði en KR lék vel í leiknum og vann verðskuldaðan sigur.

„Ég held að allir hafi séð að við unnum sem ein heild og vorum sem lið. Mér finnst við hafa gert það upp á síðkastið en hlutirnir ekki fallið með okkur.“

Þó umræðan hafi verið óvægin úti í samfélaginu og á samfélagsmiðlum þá segir Indriði að KR-ingar hafi ekki verið farnir á taugum.

„Við vorum alveg rólegir. Við vitum hvernig við höfum staðið okkur í leikjunum upp á síðkastið og höfum verið að stjórna þessum leikjum og verið betri aðilinn í flestum leikja þó við höfum ekki fengið þau stig sem við vildum.

„Það er betra flæði í spilinu okkar og takturinn er að batna. Þetta er allt á réttri leið og við vissum það en fólk fer fljótt að tala og þá fara sumir fyrr á taugum en aðrir. Við erum rólegir inn á við,“ sagði Indriði sem er þó alveg á jörðinni og meðvitaður um að það er stutt í næsta leik.

„Þetta er bara einn leikur og það er leikur aftur á laugardaginn (við ÍBV í Vestmannaeyjum) og þetta er fljótt að gerast og mótið er stutt. Við þurfum að halda áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×