Íslenski boltinn

Rúnar: FH-ingar skoruðu eftir horn sem þeir eru bestir í

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Páll vildi þrjú stig.
Rúnar Páll vildi þrjú stig. vísir/vilhelm
"Mér fannst við eiga skilið að jafna þennan leik og gott betur en það," sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við Vísi eftir jafnteflið gegn FH á Samsung-vellinum í kvöld.

"Við fengum nokkur góð færi í seinni hálfleik. Allavega eru þetta færi sem hingað til hafa talist góð færi," sagði Rúnar.

Stjarnan byrjaði betur í leiknum en FH tók völdin nokkuð snemma og skoraði í fyrri hálfleik. Mark sem gestirnir áttu skilið.

"Ég er alveg sammála því. Við byrjuðum betur svona fyrsta korterið en FH tók síðan yfir leikinn. Þeir sköpuðu sér ekki mikið af færum en skoruðu eftir hornspyrnu sem þeir eru bestir í," sagði Rúnar sem var ánægður með seinni hálfleikinn hjá Stjörnunni.

"Við byrjuðum seinni hálfleikinn af krafti og sköpuðum okkur nokkur færi. Jeppe var frekar óheppinn í sínum færum. Gunnar ver tvisvar frábærlega frá honum. Persónulega fannst mér við taka yfir leikinn undir lokin og við vorum miklu hættulegri en þeir. Duwayne þurfti ekkert að verja nema eitthvað eitt langskot."

Eftir sigra í þremur fyrstu leikjunum er Stjarnan nú búin að gera jafntefli við KR og FH í síðustu tveimur leikjum.

"Við höfum ekki rúllað yfir neitt lið hingað til. Við þurftum að hafa fyrir þessum sigrum, stiginu á móti KR og stiginu hér í dag. Það er bara mikilvægt að tapa ekki leikjum," sagði Rúnar Páll Sigmundsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×