Íslenski boltinn

Gregg Ryder: Fyrri hálfleikur drap okkur

Árni Jóhannesson skrifar
Gregg Ryder var daufur að leikslokum í kvöld.
Gregg Ryder var daufur að leikslokum í kvöld. vísir/stefán
Þjálfari Þróttar var daufur í dálkinn, skiljanlega þegar blaðamaður náði á hann eftir 1-4 tap Þróttar gegn Valsmönnum í kvöld. Hann tók undir að þetta hefði verið erfiður dagur á skrifstofunni.

„Við verðum að læra af þessum leikjum en þessi leikur var eins og leikurinn á móti Stjörnunni þar sem við spiluðum ekki vel og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Þetta má ekki gerast reglulega, við erum of óstöðugir.“

Leikmenn Þróttar voru ekki að gera sér neina greiða í dag en þeir gáfu boltann allt of oft frá sér þannig að Valur náði að skapa sér færi og skora í leiknum í kvöld.

„Öll mörkin í fyrri hálfleik komu úr slíkum aðstæðum. Við höfðum tala um það að Valur vilji spila þannig að okkur sé þrýst aftur en við leyfum þeim í gríð og erg að fá boltann fyrir framan teiginn og þeir nýttu það sérstaklega þegar Guðjón Pétur fékk allan tímann í heiminum til að skjóta. Það á ekki að gerast þegar við vitum af þessu og er algjörlega óafsakanlegt að leyfa þetta.“

Gregg vill sjá meiri stöðugleika hjá sínum mönnum.

„Við erum nýir í deildinni og með marga nýja leikmenn og við verðum að koma okkur upp stöðugleika. Þegar við vinnum leik eins og á móti Breiðablik þá verðum við að mæta jafn ákveðnir og fastir fyrir í næsta leik. Við vorum ekkert af þessum hlutum sérstaklega í fyrri hálfleik. Fyrri hálfleikur drap okkur í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×