Handbolti

Alexander og Stefán Rafn þýskir meistarar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander og félagar tryggðu sér titilinn í dag.
Alexander og félagar tryggðu sér titilinn í dag. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen varð í dag þýskur meistari í handbolta í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir stórsigur, 23-35, á N-Lübbecke á útivelli.

Ljónin fengu 56 stig, einu stigi meira en Flensburg sem varð í 2. sæti. Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar í Kiel enduðu svo í því þriðja með 50 stig.

Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk í sínum síðasta leik fyrir Löwen og Alexander Petersson bætti einu marki við. Þeir félagar náðu loks að verða meistarar en Löwen hefur verið nálægt því að vinna þýska meistaratitilinn á undanförnum árum.

Kiel rúllaði yfir Stuttgart, 32-23. Marko Vujin var markahæstur í liði Kiel með fimm mörk.

Bjarki Már Elísson skoraði eitt mark fyrir Füchse Berlin sem bar sigurorð af Balingen á útivelli, 31-32. Erlingur Richardsson þjálfar Füchse Berlin sem endaði í 5. sæti deildarinnar.

Flensburg tók Bergischer í bakaríið á heimavelli, 41-27. Arnór Þór Gunnarsson var langmarkahæstur í liði Bergischer með níu mörk, þar af sjö af vítalínunni. Björgvin Páll Gústavsson varði níu skot í markinu. Bergischer endaði í 12. sæti deildarinnar.

Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði tvö mörk fyrir Eisenach sem tapaði 31-25 fyrir Melsungen á útivelli. Eisenach féll niður um deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×