Fótbolti

Ragnar: Auðvitað viljum við ekkert vera að drulla á okkur í æfingarleikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands, var svekktur með frammistöðuna í tapi gegn Noregi í kvöld, en segir að það sé ekki hægt að bera saman vináttulandsleiki og leikina á EM.

„Það er svekkjandi og pirrandi. Það er alltaf pirrandi að tapa, það segir sig sjálft," sagði Ragnar Sigurðsson, varnarmaður Íslands, í samtali við Vísi í leikslok.

„Allt liðið er að spila illa. Það er ekki einn og einn maður. Við erum ekki samstíga í þessu og svo erum við að spila með nýjum manni hliðina á sér báðum megin."

„Við erum ennþá að prófa og sjá hvað við erum að gera og það er hluti af þessu. Maður þekkir ekki alveg inn á manninn sem er við hliðina á sér. Það er nokkuð eðlilegt."

Aðspurður hvort hann hefði áhyggjur af varnarleiknum þegar stutt er þangað til að flautað verður til leiks í Fakklandi svarar Ragnar kokhraustur:

„Nei, ég hef engar áhyggjur. Þetta er æfingarleikur og við erum að fara keppa alvöru leiki í Frakklandi," sagði Ragnar og segir að það sé munur á vináttulandsleikjum og alvöru leikjum:

„Það er bara munur þar á. Auðvitað viljum við ekkert vera að drulla á okkur í þessum vináttuleikjum, en það er ekki hægt að bera þetta saman."

„Þjálfararnir eru ekkert búnir að segja neitt. Við tökum það í kvöld eða á morgun. Þá verður bara farið yfir þetta og við förum yfir vídeó hvað við erum að gera vel og hvað illa og vinnum út frá því," sagði varnarjaxlinn að lokum.


Tengdar fréttir

Aron Einar: Ég get miklu betur en þetta

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var ekki ánægður með sína frammistöðu í kvöld en gladdist þó yfir því að hafa ekki fundið fyrir ökklameiðslunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×