Íslenski boltinn

Valsararnir fjórir í íslenska landsliðinu mæta á Hlíðarenda á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen, Birkir Már Sævarsson, Rúnar Már Sigurjónsson og Ari Frey Skúlason.
Eiður Smári Guðjohnsen, Birkir Már Sævarsson, Rúnar Már Sigurjónsson og Ari Frey Skúlason. Mynd/Heimasíða Vals
Krakkarnir í Val fá frábært tækifæri til að hitta fjóra leikmenn íslenska A-landsliðsins í knattspyrnu á morgun fimmtudag.

Íslenska landsliðið er að spila við Norðmenn í Osló í kvöld en flýgur síðan heim í fyrramálið og spilar lokaleik sinn við Liechtenstein á mánudaginn.

Fjórir leikmenn íslenska liðsins hófu ferilinn sinn í efstu deild með Val að Hlíðarenda en þeir eru nú allir atvinnumenn á Norðurlöndunum.

Leikmennirnir eru Eiður Smári Guðjohnsen, Birkir Már Sævarsson, Ari Frey Skúlason og Rúnar Már Sigurjónsson.

Valsmenn segja frá heimsókninni á heimasíðu sinni. „Iðkendum í Val gefst því kostur á kveðja kappana, fá eiginhandaráritanir eða myndir af sér með þeim. Þá munu þeir án efa kíkja út á völl og heilsa upp á þá sem eru á æfingu," segir í fréttinni á síðu Vals.

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði síðast með Val sumarið 1994, Ari Frey Skúlason var síðast með Valsliðinu sumarið 2006, Birkir Már Sævarsson lék síðast með Val 2008, og Rúnar Már Sigurjónsson lék með Val sumarið 2013 áður en hann fór til Sundsvall í Svíþjóð.

Eiður Smári Guðjohnsen lék 17 leiki og skoraði 7 mörk með Val í efstu deild, Ari Frey Skúlason var með 1 mark í 11 leikjum, Birkir Már Sævarsson skoraði 2 mörk í 56 leikjum í efstu deild með Val og Rúnar Már Sigurjónsson er þeirra markahæstur með 13 mörk í 70 leikjum með Val í efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×