Fótbolti

Ótrúlegur viðsnúningur í leik Tékka og Króata | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tékkar fagna jöfnunarmarki Necid.
Tékkar fagna jöfnunarmarki Necid. vísir/getty
Króatar fóru illa að ráði sínu gegn Tékkum í D-riðli á EM 2016 í Saint-Étienne í dag. Lokatölur 2-2.

Króatíska liðið var miklu sterkari aðilinn í leiknum og allt benti til þess að það myndi landa þægilegum sigri.

Ivan Perisic kom Króötum í 1-0 með góðu skoti á 37. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Ivan Rakitic virtist svo vera búinn að tryggja Króatíu sigurinn þegar hann lyfti boltanum smekklega yfir Petr Cech á 59. mínútu og staðan 2-0.

En á 76. mínútu minnkaði varamaðurinn Milan Skoda muninn með frábærum skalla eftir fyrirgjöf Tomás Rosický og gaf Tékkum von.

Skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma köstuðu nokkrir stuðningsmenn Króatíu flugeldum inn á völlinn og Mark Clattenburg þurfti að stöðva leikinn. Fáránleg hegðun sem dregur örugglega dilk á eftir sér.

Þetta hlé sem var gert á leiknum fór illa í leikmenn Króatíu og á þriðju mínútu í uppbótartíma handlék Domagoj Vida boltann innan vítateigs og Clattenburg benti á punktinn.

Varamaðurinn Tomás Necid steig fram og skoraði af fádæma öryggi úr vítinu og jafnaði metin. Ótrúlegur viðsnúningur og enn aftur er skorað í uppbótartíma á EM.

Eftir leikinn eru Króatar með fjögur stig í C-riðli en Tékkar með eitt.

Tékkland 0-1 Króatía Tékkland 0-2 Króatía Tékkland 1-2 Króatía Tékkland 2-2 Króatía



Fleiri fréttir

Sjá meira


×