Fótbolti

Heimir: Þjálfari Portúgals með ógnvekjandi árangur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ísland mætir Portúgal í fyrsta leik liðsins á EM 2016 í fótbolta í kvöld en leikurinn fer fram á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Étienne og hefst klukkan 19.00.

Strákarnir okkar mæta vel undirbúnir til leiks en þjálfarateymið hefur eytt miklum tíma í að leikgreina portúgalska liðið fyrir leikinn í kvöld.

„Við erum búnir að fara yfir Portúgal, þeirra styrkleika og veikleika og þeirra helstu leikmenn. Við Ólafur Kristjánsson gerðum það. Svo fórum við yfir föstu leikatriðin þeirra og tókum þau fyrir á æfingu,“ segir Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari, við Vísi.

„Svo tók við að undirbúa okkur fyrir leikinn og hugsa hvað við þurfum að gera og hvernig við ætlum að verjast þeim. Svona var undirbúningurinn fyrir leikinn.“

Þjálfari Portúgals er Fernando Santos sem áður þjálfaði gríska landsliðið og Olympiacos þegar Alfreð Finnbogason spilaði þar. Heimir er mjög hrifinn af hvað Santos hefur gert með portúgalska liðið sem er virkilega öflugt.

“Þeir sem þekkja Fernando Santos vita hversu öflugur hann er. Hann þjálfaði gríska landsliðið með frábærum árangri en þar voru engar stórstjörnur. Hann náði upp mikilli liðsheild í gríska liðinu sem er ekki með frægustu leikmenn í heimi,“ segir Heimir.

“Við horfðum á sjónvarpsþátt um portúgalska liðið þar sem kom fram að hann hefur aðeins tapað einum mótsleik samtals með Grikki og Portúgal. Það er svolítið ógnvekjandi að hugsa út í það.“

“Núna fær hann upp í hendurnar besta fótboltamann í heimi og fleiri ótrúlega góða einstaklinga. Santos er líka búinn að búa til góða liðsheild hjá Portúgal úr liði sem er með góða einstaklinga.  Sem þjálfari er gaman að sjá hvernig þeir vinna. Þar með er ekki sagt að við getum ekki strítt þeim,“ segir Heimir Hallgrímsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×