Fótbolti

Ragnar: Ég vil hafa Ronaldo nálægt mér til að láta hann finna fyrir því

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Sigurðsson á æfingu íslenska liðsins.
Ragnar Sigurðsson á æfingu íslenska liðsins. vísir/Epa
Það styttist í fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu í fótbolta en strákarnir okkar spila sinn fyrsta leik á stórmóti í sögunni gegn Portúgal á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Étienne.

Strákarnir hafa legið yfir myndböndum af portúgalska liðinu sem er frábært og líklegt til afreka á mótinu með einn besta leikmann heims innan sinna raða.

„Við erum aðallega búnir að fara yfir hvernig þeir sækja og skoða hornspyrnunar þeirra. Svo höfum við verið að skoða hvernig þessir gaurar hjá þeim vilja taka skotfintur og reyna að plata okkur. Við þurfum að vera tilbúnir fyrir allt svoleiðis,“ segir Ragnar í samtali við Vísi.

Hjá Portúgal snýst allt um Cristiano Ronaldo sem getur bæði bætt leikja- og markametið í sögu Evrópumótsins í Frakklandi. En Portúgal er meira en bara Ronaldo.

"Þeir eru með heimsklassa lið sem er ofarlega á heimslistanum. Að sjálfsögðu er þetta ekki bara Ronaldo. Þeir eru með Nani og Quaresma og fullt af öðrum gaurum. Ég hef enga trú á því að þetta verði einhver eins manns sýning hjá Ronaldo,“ segir Ragnar.

Ragnar Sigurðsson vill taka á Ronaldo.vísir/vilhelm
Getum gert hvað sem er

Ronaldo hefur spilað mikið sem framherji hjá portúgalska landsliðinu en ekki úti á kantinum eins og hjá Real Madrid. Miðvörðurinn vill fá Ronaldo í fangið í kvöld.

„Það væri þægilegra að hafa Ronaldo í níunni þar sem maður getur verið nær honum og látið hann finna fyrir því. Hann er hættulegri þegar hann kemur á ferðinni á þig. Maður veit samt alveg hvernig hann spilar. Hann er svolítið að hanga úti á kantinum þegar lítið er í gangi en svo kemur hann inn í teiginn og er stórhættulegur þar,“ segir Ragnar sem hefur fulla trú á góðum úrslitum í kvöld.

„Að sjálfsögðu. Maður er alltaf að blaðra um þetta gamla bull en við höfum unnið lið eins og Holland, Tyrkland og Tékkland," segir hann.

„Við getum gert hvað sem er en við þurfum bara að standa okkur núna. Við þurfum að standa saman því við erum ekki með neinn eins og Ronaldo. Þetta verðum við að gera saman og ef við gerum það eins og við höfum áður gert þá eigum við góða möguleika,“ segir Ragnar Sigurðsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×